Skip to main content

Urriðavatnssund 2023

 Laugardaginn 29. júlí

 

Urriðavatnssundi 29. júlí 2023 er aflýst !

27.07.2023
Kæru þið öll sem hafið skráð ykkur í Urriðavatnssundið 29. júlí nk.

Okkur finnst það bæði mjög leitt og miður að þurfa að tilkynna að sundið fellur niður, vegna óvenjulega lágs hitastigs í vatninu. Frá því að sundið fór fyrst fram sem opinber viðburður árið 2013, þá hefur vatnið oftast verið um og yfir 15°C á sunddegi, en var þó einu sinni mun lægra eða 11.2°C. Sundið, sem þá var stytt vegna kuldans, gekk í sjálfu sér vel en mörg þeirra sem syntu töluðu um mikinn kulda og fleiri en venjulega þurftu aðstoð. Vatnshitinn kl. 08:00 í dag var 11.7°C og af hitastigmælingum í júlí verður séð að hann hefur farið lækkandi og sl. 2-3 sólarhringa hefur vatnshitinn lækkað um allt að 1.5°C. Um er að kenna lágum lofthita í júlí og kannski mest því að á nóttunni hefur hiti margoft farið niður í lága eins stafs tölu, lægst undir 1°C. Af veðurspá að dæma er ólíklegt að framangreind þróun snúist við. 

Byggt á reynslu okkar skipuleggjendanna og að höfðu samráði við reynt sundfólk og sérfróða aðila, þá tökum við þá ákvörðun að aflýsa Urriðavatnssundi 2023. Sú ákvörðun er á ábyrgð okkar einna og tekin með öryggi sundfólks að leiðarljósi, en einmitt það hefur verið í brennidepli við skipulagningu og framkvæmd sundsins frá upphafi.

Nánari upplýsingar, um endurgreiðslu skráningargjalda og um áhrif þessa fyrir þau sem hugðust synda sundið sem lið í Landvættaþrautinni, verða sendar á hvern og einn þann sem hafði skráð sig í sundið. 

Verið öll velkomin að ári!

Múlaþingi, 27. júlí 2023

Skipuleggjendur Urriðavatnssunds 

Afhending gagna fer fram í sal HEF (Ráðhúsinu í Fellabæ) milli kl. 16:00 og 22:00 föstudaginn 28. júlí 2023.

Ráshópar og rástímar

 • Ráshópur 1 - 1250 m Mæting kl. 7:30 Ræsing kl. 8:00

 • Ráshópur 2 - 2500 m Mæting kl. 8:15 Ræsing kl. 8:45

 • Ráshópur 3 - 500 m Mæting kl. 8:20 Ræsing kl. 8:50

Leyfilegt er að prófa vatnið allt fram til kl. 19:00 á föstudag.  Björgunarsveitin tekur stjórn á svæðinu frá og með þeim tíma.

Sjálfboðaliðar óskast !

Urriðavatnssund fer fram laugardaginn 29. júlí nk.  Dagana fyrir sund og á sunddaginn sjálfan, vantar okkur sjálfboðaliða í ýmis verk.

Hafir þú tíma og áhuga, hafðu samband með tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Auglýsing !

auglysing2023

Tilboð !!

ulogoÍ tilefni af 10 ára afmæli sundsins, ætlum við að bjóða sérstök kjör í 500 m sundið.

Ungmenni (12-17 ára) + foreldri/forráðamaður greiða eitt gjald ef þau skrá sig saman.

Tilvalið tækifæri til að spreyta sig !

Sundmenn athugið !!

2014 GD 2Skráning í sundið fer hægt af stað.  Við viljum því hvetja alla þá sem eru áhugasamir að skrá sig sem fyrst.  Það auðveldar okkur sem að undirbúningi stöndum alla vinnu og aðföng.

Austfirskir sundmenn eru sérstaklega hvattir til aða láta til sín taka.  Þið sem eruð svamlandi í sjónum hér á fjörðunum, væri ekki ráð að prófa ferskvatnið ? 

Við erum með vegalengdir sem henta öllum.

 

VERTU MEÐ !

Sundleidir2018VERTU MEÐ í margföldu afmælissundi 29. júlí 2023 Urriðavatnssundið 29. Júlí nk. verður afmælissund í mörgum skilningi. Þá verða liðin tíu ár frá fyrsta opinbera sundinu í júlí 2013 og þá verður líka slíkt sund þreytt í tíunda sinn því ekki var synt 2021 vegna Covid-19. Þessi tíu-tvenna er ekki það eina því við munum líka halda upp á þrettán ára afmæli, þar sem heimamaðurinn Eiríkur Stefán Einarsson synti Urriðavatnssundið árin 2010, 2011 og 2012, já og raunar Covid-árið 2021 líka, svo fjórtán ára afmælinu verður ekki sleppt. Við viljum gera þetta að stórum viðburði og vonumst til að sjá ykkur sem allra flest. Kannski munum við líka í takt við tímann hætta að tala um sundmenn og sundfólk og tala bara um syndara. Vatnið bíður, vertu með 29.07. 2023, hlökkum til að sjá þig  !

Skipuleggjendur Urriðavatnssunds

Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir Neskaupstað skrifar:

Bobba jonsLangar ykkur að taka þátt í skemmtilegum íþróttaviðburði og prófa eitthvað nýtt? Ef svo þá hvet ég ykkur til að taka þátt í Urriðavatnssundinu sem haldið er ár hvert í Urriðavatni nálægt Egilsstöðum. Öll umgjörðin í kringum sundið er til fyrirmyndar og vel staðið að öllum öryggismálum. Hægt er að velja um 3 vegalengdir þannig að öll geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég hef bæði synt í spegilsléttu vatninu og í vindi og öldugangi en upplifunin er alltaf jafn stórkostleg að loknu sundi.

Ég hvet öll til að skrá sig og taka þátt. Þið sjáið ekki eftir því.

Um upphaf Urriðavatnssundsins

felagar2007Sumurin 2011 og 2012  synti ég svokallað Vansbrosund í Svíþjóð. Það  er 3 km langt,  fyrst 2 km. niður hina lygnu Dalelven og svo 1 km upp þverá hennar, Vanån.  Ég heillaðist af vatninu,  hvetjandi áhorfendum, fólki í bátum sem gætti okkar sundfólksins og allri umgjörð sundsins. Í fyrra skiptið dagdreymdi mig um að stofna til svona sunds heima á Héraði. Í seinna skiptið vissi ég á mótum ánna tveggja að slíkt sund ætti að vera í Urriðavatni.  Þegar heim kom setti ég mig í samband við Guðmund Davíðsson yfirmann Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) og þau Steinunni Ingimarsdóttur og Kjartan Benediktsson í björgunarsveitinni Hérað sem leist vel á hugmyndina. Ég ræddi við landeigendur á Urriðavatni sem tóku hugmyndinni vel og í ljós kom að Urriðavatnssund var í raun þegar til. Eiríkur Stefán Einarsson frá Urriðavatni hafði þá þegar synt vatnið endilangt og hugðist gera að venju. Það voru öðru fremur velvilji landeigenda og Eiríks Stefáns ásamt með tilstyrk HEF og björgunarsveitarinnar Héraðs sem gerðu fyrsta opinbera Urriðavatnssundið að veruleika 27.júlí 2013 og síðan verið árlega nema hvað það féll niður sumarið 2021 vegna Covid.

Pétur Heimisson

Mynd: Hilmar Gunnlaugsson og Pétur Heimisson

Ef aflýsa þarf Urriðavatnssundi

Skipuleggjendur Urriðavatnssunds hafa það að markmiði að halda sundið á hverju ári og alltaf sömu helgina, á laugardegi, síðustu helgi fyrir Verslunarmannahelgi. Allt skipulag og framkvæmd sundsins byggir á vinnu sjálfboðaliða og þar er aðkoma Björgunarsveitarinnar Héraðs stærst. Öll öryggismál tengd sundinu lúta skipulagi björgunarsveitarfólksins sem líka sinnir öryggismálunum að langmestu leyti.

Reynslan hefur kennt okkur að til þess getur komið að aflýsa þurfi sundinu en það gerðist árið 2020 vegna Covid. Þá var hægt að aflýsa því með löngum fyrirvara þannig að skráning hófst aldrei. Aðrar aðstæður gætu orðið til þess að aflýsa þyrfti sundinu með stuttum fyrirvara, jafnvel mjög stuttum. Útlit var fyrir það fyrir nokkrum árum en þá var það alvarlega í skoðun hjá okkur skipuleggjendum síðustu klukkustundirnar fyrir sundið að aflýsa því vegna mikils hvassviðris en það slapp til í það skiptið.

Enn eitt sem líkt og Covid og hvassviðri gæti ógnað öryggi sundmanna er sá möguleiki að björgunarsveitarfólk verði kallað í raunverulegar björgunaraðgerðir og geti því ekki annast gæslu og öryggismál við sundið. Við slíkar aðstæður gæti þurft að afslýsa því með stuttum fyrirvara.

Skipuleggjendur sundsins áskilja sér rétt til þess að aflýsa sundinu með lengri, styttri eða mjög stuttum fyrirvara við aðstæður eins og að ofan eru raktar og af öðrum ástæðum sem þeir meta þannig, Þá og þegar í hugsanlegri framtíð.

Ef sundinu er aflýst þegar 2 vikur eða meira eru til sunds þá verður skráningargjald endurgreitt að fullu. Komi til þess að aflýsa þurfi sundinu þegar minna en tvær vikur eru til sunds, verður skráningargjaldið endurgreitt, nema umsýslugjald sem í sundinu árið 2021 nemur kr. 3000.- 

Skipuleggjendur Urriðavatnssundsins

Sjálfboðaliðar óskast

Urriðavatnssund verður haldið 29. júlí 20213

Þeir sem hafa áhuga á að leggja okkur lið við undirbúning og framkvæmd sundsins eru beðnir að senda okkur tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Búnaður

urr2015 09Skipuleggjendur sundsins ráðleggja sundmönnum að nota búnað sem ætlað er að halda á manni hita; sundgalla og gjarnan hettu, hvorutveggja úr neoprane. Einnig má nota vettlinga og sokka sem miða að því sama. Mikilvægt er að galli passi vel og að gefnu tilefni er sérstaklega bent á of stór galli kælir beinlínis því nýtt vatn kemst þá sífellt milli búnings og líkama. Þá má galli ekki þrengja um of að brjósti enda mikilvægt að létt sé að anda.

Búnað má t.d. kaupa í GG Sport Gummibátar & Gallar, Ellingsen og víðar.

Skylda er að nota sundhettu sem sundmaður fær afhenta fyrir sundið.

Ekki má nota neinn þann búnað sem ætlaður er til að auka hraða s.s. hvers konar sundfit, blöðkur eða spaða, hvort sem er á hendur eða fætur.

Sundleiðir

kort20192500 metrar - Landvættasund

Ræst er sunnanvert úr víkinni (Hitaveitu- eda Volgruvík) sunnan við Hitaveitutangann og synt fyrir hann, beygt til norðurs og umhverfis bauju sem er í vatninu nærri Bræðratanga.  Svo er synt til baka fyrir tangann og inn í víkina norðanverða.  Þar er markið.   Sundið er um 2500 metra langt.

1250 metrar - Hálft Landvættasund

Ræst er sunnanvert úr víkinni (Hitaveitu- eda Volgruvík) sunnan við Hitaveitutangann og synt fyrir hann, beygt til norðurs og umhverfis bauju sem er á miðri 2500 m brautinni.  Svo er synt til baka fyrir tangann og inn í víkina norðanverða.  Þar er markið.   Sundið er um 1250 metra langt.

500 metrar - Ungmenna- og skemmtisund

Ræst er sunnanvert úr víkinni (Hitaveitu- eða Volgruvík) sunnan við Hitaveitutangann, synt út fyrir bauju sem er um 250 m úti á víkinni og synt til baka  í mark í norðanverðri víkinni.  Leiðin er um 500 m löng.

 


Hitastig

Tími: 
Egilsstaðir - Tjarnarbraut:
Hitastig:  -2,7 °C
Urridavatn: Yfirborð:
Hitastig:  0,3 °C

Verðskrá 2023

Þátttökugjöld:

  • 2500 m .... 12.000 kr
  • 1250 m ..... 12.000 kr  
  • 500 m .......  6.000 kr  

Ekki verður hægt að greiða með korti í ár en millifærslur og bankakröfur notaðar eftir því sem við á.

Í svarpósti frá netskraning.is á að koma fram kennitala og bankareikningur, þannig að auðvelt á að vera að millifæra greiðsluna

Skráning er ekki gild fyrr en greiðsla hefur borist.